Íslensk fjöll eru frábær til að njóta útivistar og til að komast í beina tengingu við óspillta náttúruna. Á Íslandi eru fjöllin ekki ýkja há en hæsti tindurinn er Öræfajökull, 2.119 metra yfir sjávarmáli. Þrátt fyrir að fjöllin séu ekki mjög há (oft í 800 – 1200 m) þá er lítið um gróður og fleira því um líkt sem gengur og gerist í um 2.000 – 3.000 metrum annars staðar í heiminum. Þetta gerir fjallgöngur á Íslandi að mörgu leiti öðruvísi en annars staðar, til dæmis er súrefnis upptaka mun betri fyrir göngumann í 1.000 m. heldur en 2.500 m en svokallað háfjalla loft (þunnt loft) verða göngugarpar lítt varir við á Íslandi.

Á Íslandi er víða hægt að fara merktar leiðir, bæði stuttar og langar. Á lengri leiðum er oft hægt að gista í skálum á leið sinni um hálendið og vera úthvíldur fyrir næsta göngudag. Einnig er mikið um dagleiðir og nokkurra klukkustunda leiðir. Síðan eru heilmiklir möguleikar fyrir þá sem vilja fara ótroðnar slóðir, en þá gildir að vera vel undirbúinn, hafa allar öryggisráðstafanir á hreinu og muna að láta vita af sér áður en lagt er af stað. Einnig þarf að taka tillit til þess að veður á Íslandi getur breyst mjög fljótt og því þarf að undirbúa allar ferðir með það í huga.

Það er mikilvægt að njóta íslensku fjallanna, horfa vel í kringum sig og fylgjast með dýralífinu og gróðrinum. Þetta er umhverfi og náttúra sem ekki er hægt að finna svo víða, ef það er hreinlega hægt yfir höfuð.

Í öllum landshlutum eru skemmtileg fjöll, bæði fyrir vana og óvana, fullorðna og börn sem gaman er að ganga á. Þessi fjöll gefa mikið af sér og eftir góðan dag á íslensku fjalli ertu fullur af orku, endurnærður og tilbúinn í næsta dag hvað sem hann ber í skauti sér.