Það hefur mikið færst í aukana á síðustu árum að erlendir ferðamenn á Íslandi kjósi heimagistingu frekar en hótelgistingu. Vinsældir Airbnb hafa aukist samhliða þessari þróun enda um að ræða vefsíðu sem einmitt býður upp á heimagistingar. Um mitt árið 2017 voru um 5000 íbúðir á Íslandi á skrá hjá Airbnb samkvæmt gögnum frá Seðlabankanum, en það hlýtur að teljast ansi stórt hlutfall miðað við íbúafjölda á Íslandi.

Það eru margir kostir við að velja svona heimagistingar. Það eru til að mynda alls kyns húsnæði á lista hjá Airbnb allt frá herbergjum eða íbúðum í miðbæ Reykjavíkur í sumarhús úti á landi, svo allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi. Það kjósa einnig margir þægindi heimagistingarinnar, þar sem þú getur búið eins og heima hjá þér í íbúð með fullbúnu eldhúsi en ekki bara í einu herbergi og ef gistingin er til langs tíma þá getur þetta verið ansi þægilegt, sérstaklega fyrir fjölskyldufólk. Þar að auki er oft hagstæðara að leigja sér Airbnb en að kaupa sér hótelherbergi og margir sem velja því þennan kost fram yfir aðra af þeirri ástæðu.

Hins vegar er ekki allt gull sem glóir og hefur Airbnb einnig marga ókosti. Til að mynda hefur verð á Airbnb íbúðum á Íslandi tvöfaldast á seinustu árum, sem hefur valdið hækkun á verði á leigumarkaðnum og eru íbúðirnar margar hverjar ekki löglega skráðar samkvæmt skýrslu sem kom út í sumar frá Íbúðalánasjóði. Í skýrslunni kemur fram að þessar óskráðu íbúðir valdi því að sveitarfélögin verði af mörg hundruð milljónum sem kæmu í þeirra hlut ef íbúðirnar væru bara rétt skráðar. Íbúðalánasjóður bendir einnig á að aukning á skammtímaleigðum íbúðum hafi vond áhrif á fasteignamarkaðinn og hafi valdið hækkun á fermetraverði á Íslandi. Meta þau sem svo að áhrif Airbnb-væðingar í íslenskri ferðaþjónustu hafi hækkað fasteignaverð á Íslandi um 5-6% á árunum 2015 – 2017.