Hvalaskoðun við Ísland

Hvalaskoðun við Ísland er gríðarlega vinsæl meðal erlendra ferðamanna sem hingað koma. Allt frá því að skipulagðar hvalaskoðunarferðir hófust hérlendis fyrir ríflega 20 árum hefur ferðamönnum í hvalaskoðun fjölgað jafnt og þétt. Áætlað er að árið 2018 leggi um 300 þúsund manns skipsfjöl undir fót til að sjá hvali við Íslandsstrendur.

Hvalreki

Sambúð manna og hvala við strendur landsins á sér langa sögu. Í Íslendingasögunum er oft minnst á hvali og hvalnytjar enda gátu þær skilið milli feigs og ófeigs þegar illa áraði. Það er ástæða fyrir því að orðið hvalreki er iðulega notað um óvæntan ávinning.

Hvalveiðar fyrr og nú

Þrátt fyrir langa sögu hvalnytja við Ísland urðu hvalveiðar ekki að eiginlegri atvinnugrein fyrr en á 17. öld þegar Baskar hófu veiðar við landið. Erlendir hvalveiðimenn voru allsráðandi fram yfir árið 1900 þegar hvalveiðar voru takmarkaðar verulega vegna ofveiði. Hvalveiðar hófust aftur um 1935 þegar hvalastofnarnir höfðu jafnað sig og sáu Íslendingar eftir það einir um veiðarnar. Árið 1986 voru hvalveiðar bannaðar á alþjóðavettvangi og hafa þær verið stundaðar með verulegum takmörkunum síðan.

Hvalaskoðun vex fiskur um hrygg

Fyrstu skipulögðu hvalaskoðunarferðirnar hófust við Skjálfanda í lok síðustu aldar og er Húsavík af mörgum talin höfuðstaður hvalaskoðunar á Íslandi. Má ætla að ríflega 100.000 ferðamenn sigli frá Húsavík á þessu ári til að njóta nærverunnar við þessar stærstu skepnur jarðarinnar. Til að mæta auknum kröfum ferðamanna um gæði ferðaþjónustunnar er nú boðið upp á nám í hvalaleiðsögn við Framhaldsskólann á Húsavík.

Fara hvalaskoðun og hvalveiðar saman?

Töluvert hefur verið deilt um tilgang þess að enn séu stundaðar hvalveiðar við Ísland. Náttúruverndarsamtök hafa gagnrýnt veiðarnar harðlega og haldið því fram að þær muni hafa veruleg neikvæð áhrif á íslenska ferðaþjónustu. Aðilar í ferðaþjónustunni og víðar hafa einnig lýst yfir áhyggjum af veiðinum og telja mikilvægt að áhrif veiðanna verði rannsökuð enn frekar.